Njarðargata heimsótt

Published by Efling on

Heitar umræður spunnust í heimsókn Sólveigar Önnu og Ragnars Ólasonar í Hverfa- og verkbækistöðina á Njarðargötu í gær. Hverfastöðin var einn þeirra vinnustaða Reykjavíkurborgar sem tók þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar. Mikil ánægja var með styttinguna á meðal starfsfólksins og voru öll sammála því að tilraunin hafi gengið mjög vel og haft veigamikla þýðingu fyrir þau. Ánægjuna með styttinguna hafi þau tjáð með ýmsum hætti í fjölda kannanna sem Reykjavíkurborg lagði fyrir þau bæði áður en styttingin hófst og á meðan á henni stóð. Niðurstöður liggja skýrt fyrir í skýrslu sem borgin lét gera og sjá má á mynd með færslunni.

Þrátt fyrir þessa miklu ánægju sem verkefnið gaf af sér og jákvæðar niðurstöður sem skýrslan sýnir hefur Reykjavíkurborg nú afnumið styttinguna án þess að bjóða neitt í staðinn.

Með því hunsar borgin vilja þeirra sem tóku þátt i verkefninu. Skýr krafa kom fram á fundinum að hlustað sé á vilja þeirra og mark tekið á þeim þegar svona ákvarðanir eru teknar. Styttingin hafi haft veruleg áhrif á ánægju þeirra í starfi. Starfsfólk hverfisstöðvarinnar gagnrýnir að nú þegar verkefnið hefur verið lagt af heyrist ekkert frá borginni. Ekkert bólar á könnunum um vilja starfsólkisins lengur og ekkert mark tekið á niðurstöðum tilraunaverkefnisins. Starfsfólkið spyr sig hvers vegna farið var þá út í verkefnið á annað borð. Var þetta einungis pólitískt útspil þeirra sem völdin hafa, sem aldrei var ætlað að bæta hag vinnandi fólks til lengri tíma?

Skilaboð Eflingarstarfsfólks Reykjavíkurborgar eru skýr: Við viljum að okkur sé mætt af sanngirni við samningaborðið, við viljum bætt kjör og við erum til í aðgerðir til ná fram okkar sanngjörnu kröfum.