Miðborg heimsótt

Published by Efling on

Í dag heimsótti Ragnar Ólason, ásamt starfsfólki félagssviðs Eflingar, leikskólann Miðborg til að ræða stöðu samningaviðræðna við borgina og heyra hljóðið í félögum. Á fundinum var mikið rætt um velferð barna sem leikskólar borgarinnar sinna. Á Íslandi dvelja börn mun lengur á leikskóla á daginn heldur en í mörgum nágrannalöndum okkar enda vinnuvikan lengri en gerist og gengur víðast hvar í kringum okkur. Til viðbótar við þennan langa dvalartíma og álaginu sem honum fylgir fyrir börnin, bætist við sú staðreynd að leikskólarnir eru fjársveltar stofnanir sem er erfitt að manna og starfsmannavelta mikil. Álag starfsfólks er yfirdrifið og fyrir þetta eru borguð laun sem ekki er hægt að lifa á. Hvernig getur Reykjavíkurborg boðið upp á þetta og talað um á sama tíma að velferð barnanna sé höfð í fyrirrúmi?

Í yfirstandandi kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg fer samninganefnd Eflingar fram á raunverulega styttingu vinnuvikunnar. Eins og tilraunaverkefni borgarinnar sýndi svart á hvítu hafði styttingin veruleg og góð áhrif á starfsánægju á leikskólunum sem tóku þátt og veikindatíðni minnkaði. Starfsánægja og minna álag skilar sér beint til barnanna sem langflest dvelja bróðurpart úr degi á leikskólanum.

Eflingarfólk á leikskólunum hafnar því í einu og öllu að selja kaffitímana sína. Það er engin lausn á þeim mikla vanda sem leikskólarnir standa frammi fyrir og bætir á engan hátt hag barnanna sem þar dvelja. Við krefjumst hærri launa. Við krefjumst styttingu vinnuvikunnar og við krefjumst þess að fá leiðréttingu á þeim skerðingum sem leikskólar borgarinnar; starfsfólk og börn, tóku á sig í hruninu, en hafa ekki verið leiðrétt núna 11 árum síðar. Við krefjumst þess að Reykjavíkurborg viðurkenni vandann sem leikskólarnir standa frammi fyrir og mæti okkar kröfum með sanngirni.