Hvassaleiti heimsótt

Published by Efling on

Kona sem vinnur í 80% stöðu fyrir heimaþjónustu Reykjavíkurborgar og er með næstum 30 ára starfsreynslu fær útborgaðar rétt um 220 þúsund krónur. Sonur hennar er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og var ráðinn í vinnu í raftækjaverslun um daginn. Hann er frá fyrsta degi á töluvert hærri launum en hún. Getur einhver útskýrt fyrir þessari konu hvers vegna hennar starf og reynsla sé minna virði en starf reynslulauss starfsmanns í raftækjavöruverslun?

Það var baráttuhugur í starfskonum heimaþjónustunnar í Hvassaleiti á fundi þeirra með Sólveigu Önnu og Ragnari Ólasyni í morgun. Þar, eins og reyndar á öllum vinnustöðum Reykjavíkurborgar sem Efling hefur heimsótt undanfarið, er starfsfólki misboðið. Misboðið af því gildismati sem ákvarðar kjör og aðstæður þeirra sem sinna fólki; fæða, klæða og annast um. Hver mat það svo að starf í eldhúsi sé nánast einskis virði? Hver mat það svo að störf í umönnun barna og aldraðra sé lægra virði en öll önnur störf á íslenskum vinnumarkaði? Hver fékk það út að 220 þúsund krónur væri nógu gott fyrir konu sem hefur helgað sig umönnunarstörfum? Og hver ákvað að það sé boðlegt að bæta margföldu vinnuálagi á konur á lægstu laununum dag eftir dag án þess að greiða þeim nokkurt álag fyrir? Hér er um ekkert annað en gróft kynbundið og kerfislægt misrétti að ræða sem þarf að uppræta!

Starfsfólk Reykjavíkurborgar veit hvers virði þeirra vinnuframlag er. Þau vita að ef þau hlaupa ekki hraðar kemur það niður á þeim sem síst skyldi. Þetta gera þau þó svo að það komi niður á þeirra eigin heilsu og líðan. En þeim er misboðið. Þau kerfjast hærri launa, endurskoðunar á starfsaðstæðum og viðurkenningar frá þeim sem völdin hafa á mikilvægi þeirra vinnuframlags fyrir íslenskt samfélag.