Hólaborg heimsótt

Published by Efling on

Á fundum Eflingar með starfsfólki leikskóla Reykjavíkurborgar upp á síðkastið hefur oft komið upp umræða um viðhaldsleysi á leiktækjum á leikskólalóðum borgarinnar. Við höfum heyrt dæmi um að börn hafi fengið flísar úr leiktækjum sem borgin hefur leyft að drabbast niður vegna sinnuleysis í viðhaldi. Á fundum okkar skapast oft líflegar umræður um forgangsröðun og margt talið upp sem borgin hefur þrátt fyrir allt efni á að gera og setur ofar á sinn forgangslista en aðbúnað barna á leikskólum. Eitt af því eru leikfimitæki fyrir hlaupafólk sem sett hafa verið upp í sumum hverfum en örfáir virðast nýta sér. Ólíkt leikfimitækjum þessa ímyndaða íþróttafólks, eru leiktækin á leikskólalóðum borgarinnar notuð af raunverulegum börnum okkar á hverjum degi, oft á dag. Hvað segir þessi forgangsröðun um gildismat stjórnenda Reykjavíkurborgar?

Mikið var rætt um forgangsröðun í heimsókn Agnieszku Ewu varaformanns Eflingar og Ragnars Ólasonar á leikskólann Hólaborg í gær. Hvers vegna þykir það sjálfsagt mál að aðbúnaður barna og starfsfólks leikskólanna sé neðst á forgangslista borgarinnar? Hvernig getur þeim sem völdin hafa fundist það sjálfsagt að borga starfsfólki leikskólanna, sem flestar eru konur, laun sem ekki er hægt að lifa á og segjast í leiðinni starfa í þágu jafnréttis? Hvernig getur það þótt eðlilegt að starfsfólk leikskólanna fái lægstu laun sem í boði eru á íslenskum vinnumarkaði fyrir vinnu sem allir eru sammála um að sé sú mikilvægasta af öllum? Ófaglært starfsfólk, sem heldur uppi leikskólum borgarinnar og þar af leiðandi atvinnulífinu í landinu, lætur ekki lengur bjóða sér og börnum þessarar borgar að vera komið fyrir neðst á forgangslista stjórnenda Reykjavíkurborgar. Þau krefjast leiðréttingar á sínum kjörum og aðbúnaði og gagngerrar uppstokkunar á forgangsröðun og gildismati stjórnenda borgarinnar.