Hof og Brekkuborg heimsótt

Published by Efling on

„Við elskum vinnuna okkar. Þess vegna erum við hérna ennþá. Ekki er það fyrir peningana“. Þetta sagði ófaglærð starfskona á leikskóla sem Sólveig Anna og Ragnar Ólason heimsóttu í gær. Þessi kona hefur unnið á sama leikskólanum í næstum þrjá áratugi en nær ekki 300.000 krónum útborguðum á mánuði. Hún neyðist þess vegna til að taka að sér tvær aukavinnur til að ná endum saman. Hún og aðrir starfsmenn leikskólanna sem hafa slíka starfsreynslu eru sannkölluð gullnáma. Gullnáma fyrir samstarfsfólkið, og vinnustaðinn allan þar sem hröð starfsmannavelta sem tíðkast oft á leikskólum borgarinnar skapar auka álag. Gullnáma fyrir börnin sem sækja leikskólann og verja meirihluta vikunnar með fólki sem veit hvað það syngur og hefur helgað sig starfinu. Gullnáma fyrir foreldra sem veit að það skilur börnin sín eftir í öruggum höndum reynds starfsfólks á morgnanna. En einnig gullnáma fyrir Reykjavíkurborg sem sparar háar fjárhæðir með því að borga þessum dýrmætu starfskröftum lægstu laun sem boðin eru á íslenskum vinnumarkaði. Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta það?

Brekkuborg

Ófaglært starfsfólk heldur uppi leikskólum landsins, sér um og ber ábyrgð á því sem okkur öllum er kærast; börnin okkar. Starf þeirra er sannarlega grundvöllur atvinnulífsins í landinu enda myndi samfélagið vera óstarfhæft án þeirra vinnuframlags. Mikilvægi starfsins, sama hvernig á það er litið og ábyrgðin sem lögð er á herðar starfsfólks leikskólanna er gríðarleg, um það eru allir sammála. Eflingarfólk á leikskólum borgarinnar hefur fengið sig fullsödd af þeirri vanvirðingu sem þeim og þeirra starfi er sýnd í launaumslaginu um hver mánaðarmót og vill alvöru breytingar á launum og aðbúnaði. Núna er tíminn!