Heiðarborg heimsótt

Published by Efling on

Í morgun heimsóttu Sólveig Anna og Ragnar Ólason leikskólann Heiðarborg. Fundurinn er liður í heimsóknum Eflingar til starfsfólks Reykjavíkurborgar nú þegar kjaraviðræður við borgina standa sem hæst. Rætt var um ástandið á leikskólunum og velt vöngum yfir því hvers vegna þetta óásættanlega ástand hafi fengið að viðgangast eins lengi og raun ber vitni. Fólk var sammála um að ekki sé hægt að skýra það öðruvísi en að um kerfislæga kvenfyrirlitningu sé að ræða. Eftir hrun var skorið niður á leikskólunum og nú ellefu árum síðar, þrátt fyrir margumtalaða efnahagslega uppsveiflu, hefur þessi niðurskurður ekki verið leiðréttur.

Sólveig Anna segir að það hafi verið eins í þessari heimsókn og öllum öðrum sem hún hefur verið að fara í síðustu vikur; Eflingarfólk hjá Reykjavíkurborg er löngu búið að fá nóg. „Við sem höfum unnið þessi störf vitum að kerfið er að hruni komið“ Sjálf starfaði Sólveig Anna á leikskóla bæði fyrir og eftir hrun og fann því vel fyrir áhrifum niðurskurðarins á starf leikskólanna: „Eftir hrunið var skorið niður í sérkennslu fyrir börnin, starfsmannafundir voru settir inn á vinnutíma, dregið var úr undirbúningstíma starfmanna, fleiri börnum var raðað á hvern starfsmann og afleysingar, sem áður voru tryggðar, hafa ekki verið það síðan. Það þýðir til dæmis að ef veikindi eru í starfsmannahópnum, þurfa þeir starfsmenn sem fyrir eru að sinna fleiri börnum sem þýðir meira álag“. Afleiðingarnar er dýrkeyptar; heilsu starfsmanna hrakar og fleiri fara á endanum á örorku. Það nákvæmlega hvernig þessi niðurskurður hefur komið niður á börnunum okkar mun vafalítið koma í ljós á næstu árum.