Verkföll – spurt og svarað

Published by Efling on

1. Hvað er verkfall?

Verkfall er þegar verkafólk leggur niður störf til að þrýsta á um kröfur sínar í tengslum við kjaraviðræður. Verkföll geta verið afmörkuð og staðið í skamman tíma (skæruverkföll) eða náð til allra félagsmanna viðkomandi stéttarfélaga til ótilgreinds tíma (allsherjarverkfall). Verkfallsaðgerðir, samfelldar eða með hléum, geta staðið þangað til kröfum stéttarfélags fyrir hönd meðlima sinna hefur verið mætt og ásættanlegur kjarasamningur undirritaður. Ákvörðun um verkfall er tekin sameiginlega af félagsmönnum stéttarfélags og stéttarfélagið fylgir verkfallinu eftir fyrir hönd sinna félagsmanna.

2. Hvers vegna er farið í verkfall?

Því miður duga viðræður einar og sér oft ekki gegn ofurvaldi atvinnurekenda í kjarasamningagerð. Í gegnum áratugina hefur margoft reynst nauðsynlegt fyrir verkafólk að nota verkfallsvopnið til að ná fram kröfum sínum. Margar af helstu kjarabótum vinnandi fólks á Íslandi hafa náðst vegna verkfalla, svo sem launahækkanir, takmarkanir á lengd vinnutímans, orlofsréttur og ýmis önnur réttindi.

3. Er löglegt að fara í verkfall?

Verkföll eru heimil samkvæmt sérstökum lögum sem nefnast Lög um stéttarfélög og vinnudeilur (lög nr. 80/1938). Lögin má lesa hér. Samkvæmt þessum lögum mega stéttarfélög ekki boða til verkfalla á meðan kjarasamningur er í gildi en þá ríkir svokölluð friðarskylda.

Aðeins má boða til verkfalla eftir að kjarasamningar eru útrunnir, en fleiri skilyrði þarf að uppfylla. Stéttarfélög þurfa að hafa vísað viðræðum til Ríkissáttasemjara og stéttarfélagið þarf að hafa metið það sem svo að viðræður hjá sáttasemjara séu fullreyndar og fundir hafi verið árangurslausir. Þá þurfa stéttarfélög að boða til verkfalls á löglegan hátt og láta kjósa um það meðal félagsmanna.

4. Hvernig er verkfall ákveðið?

Samninganefnd stéttarfélags ákveður hvort ástæða sé til að hefja verkfallsboðun. Verkfallsboðun er þó ekki gild fyrr en félagsmenn sjálfir hafa samþykkt hana með meirihluta greiddra atkvæða í kosningu. Það er því aldrei farið í verkfall nema með lýðræðislegu samþykki félagsmanna. Félagsmenn fá sendar upplýsingar um hvernig eigi að taka þátt í kosningu og geta einnig nálgast þær upplýsingar hjá sínu stéttarfélagi. Hafi verkfall verið samþykkt af félagsmönnum ber að tilkynna það til Ríkissáttasemjara og þeirra atvinnurekenda sem verkfallið beinist gegn sjö sólarhringum áður en það hefst. Samninganefnd getur ákveðið að fresta samþykktu fyrirhuguðu verkfalli og þarf þá að tilkynna um frestun með þriggja sólarhringa fyrirvara. Deiluaðilar geta einnig sammælst sín á milli um frestun verkfalls sem er hafið eða í undirbúningi.

5. Er hægt að segja mér upp fyrir að fara í verkfall?

Þátttaka verkafólks í löglega boðuðu verkfalli nýtur skýrrar verndar í íslenskum lögum. Atvinnurekendum er óheimilt að segja fólki upp fyrir að hlýða löglegri verkfallsboðun. Starfsfólk snýr aftur til vinnu með venjulegum hætti að loknu verkfalli.

6. Get ég sleppt því að fara í verkfall?

Hafi verkfall verið samþykkt og boðað með réttum hætti er öllum félagsmönnum í stéttarfélagi sem það nær til skylt að taka þátt í því. Að neita að taka þátt í löglegu verkfalli er óheimilt og nefnist verkfallsbrot. Stéttarfélög mega beita verkfallsvörslu til að koma í veg fyrir verkfallsbrot.

7. Fæ ég laun í verkfalli?

Atvinnurekandi þarf ekki að greiða starfsfólki laun í verkfalli. Stéttarfélögin sjálf greiða félagsmönnum sínum úr verkfallssjóði ef til verkfalls kemur. Verkfallssjóðurinn er fjármagnaður af félagsgjöldum meðlima til stéttarfélags. Stéttarfélögin setja reglur um úthlutanir úr verkfallssjóði þar sem kveðið er á um upphæðir og skilyrði þess að fá greitt.

8. Má ég finna mér aðra vinnu á meðan verkfall stendur yfir?

Samtök atvinnulífsins banna aðildarfyrirtækjum sínum að ráða til sín starfsfólk sem er í verkfalli gagnvart öðru aðildarfyrirtæki. Félagsmaður getur misst rétt á greiðslu úr verkfallssjóði leiti hann sér vinnu annars staðar meðan á verkfalli stendur.

9. Hvaða ráð eiga atvinnurekendur gegn verkföllum?

Ef atvinnurekendur standa harðir gegn kröfum verkafólks í verkfalli geta þeir svarað þeim með verkbanni. Verkbann þýðir að atvinnurekandi leyfir fólki ekki að mæta í vinnu og greiðir þeim ekki laun. Verkbönn eru fágæt, en eru heimil samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Verkbann jafngildir ekki uppsögn og starfsfólk snýr aftur til starfa með óbreyttum hætti að verkbanni loknu.

10. Er hægt að banna verkföll?

Verkalýðshreyfingin telur lagasetningu gegn verkföllum brot á réttindum verkafólks. Alþingi hefur engu að síður beitt lagasetningu reglulega til að stöðva verkföll. Slíkri lagasetningu fylgja yfirleitt röksemdir um að viðkomandi verkfall valdi þjóðhagslegum skaða. Vísar Alþingi þá deilunni um leið til gerðardóms eða deiluaðilum er gert skylt að fallast á tiltekna málamiðlunartillögu og er bannað að nýta vinnustöðvanir til að ná annarri niðurstöðu. Yfirleitt eru ekki sett lög á verkföll fyrr en þau hafa staðið yfir í nokkurn tíma og er það rökstutt sem neyðarúrræði.