Rangmæli Fréttablaðsins í dag

Published by Efling on

Samtök atvinnulífsins og leiðarahöfundar Fréttablaðsins hafa farið offari í árásum á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um hríð. Talað er um 60% til 85% hækkun launa hjá „fyrirtækjum í landinu“ og kennt við „sturlun“ og önnur álíka einkenni.

Allt er þetta fjarri lagi. Kröfurnar eru mun nær því að vera hóflegar og ábyrgar en hækkun bankastjóralauna og toppanna í samfélaginu á síðustu árum.

Kröfur Eflingar og Starfsgreinasambandsins eru um flata krónutöluhækkun ofan á greidd grunnlaun, meðal annars lágmarkslaunatrygginguna sem er nú 300.000 kr. á mánuði. Það þýðir að meðalhækkun launa yfir línuna í atvinnulífinu er mun minni að meðaltali en hækkun lægstu launa. Prósentuhækkun launa verður fallandi þegar sama krónutala kemur ofan á hærri laun. Þetta er sýnt í töflunni hér að neðan, annars vegar fyrir eitt ár og hins vegar fyrir 3ja ára samningstíma.

Launahækkanir samkvæmt kröfugerð Starfsgreinasambandsins

  Flöt hækkun um 42.000 á ári (%)Uppsöfnuð laun eftir 3 árSamtals á 3 árum (%)
300.000 13,9 425.001 41,7
400.000 10,4 525.001 31,3
500.000 8,3 625.001 25,0
600.000 6,9 725.001 20,8
700.000 6,0 825.001 17,9
800.000 5,2 925.001 15,6
900.000 4,6 1.025.001 13,9
1.000.000 4,2 1.125.001 12,5
1.100.000 3,8 1.225.001 11,4
1.200.000 3,5 1.325.001 10,4
1.300.000 3,2 1.425.001 9,6
1.400.000 3,0 1.525.001 8,9
1.500.000 2,8 1.625.001 8,3
1.600.000 2,6 1.725.001 7,8
1.700.000 2,5 1.825.001 7,4
1.800.000 2,3 1.925.001 6,9
1.900.000 2,2 2.025.001 6,6
2.000.000 2,1 2.125.001 6,3
2.500.000 1,7 2.625.001 5,0
Meðaltal – regluleg laun 6,5 771.001 19,4
Meðaltal – heildarlaun 5,4 899.001 16,2
Verðbólguspá 2019 3,8  
Svigrúm (verðbólga+framleiðni) 5,3    

Allur þorri Eflingarfólks er á 300 þúsund króna lágmarkslaunatryggingunni (þeir sem eru á lægri taxta fá launin brúuð upp í 300.000). Sá hópur fær hlutfallslega mesta hækkun, eða 13,9% á ári og þrisvar sinnum það á þremur árum.

Vegna þess að launahækkanir við flata krónutöluhækkun eru fallandi í prósentum þá verður hækkun meðallauna 6,5% og hækkun heildarlauna að öðru óbreyttu 5,4% á ári – og þrisvar sinnum það á þremur árum.

Það er því vægast sagt villandi að tala eins og meðalhækkun launa yfir línuna yrði í tugum prósenta á þriggja ára tímabili þegar hún verður 16,2% til 19,4%. Það er ansi langt undir 82% hækkun launa bankastjóra Landsbankans!

Kostnaðarauki atvinnulífsins við þessa skipan flatrar krónutöluhækkunar tekur mið af meðalhækkuninni og dreifingu launafólks á launabil.

Eins og sjá neðst í töflunni er nýjasta verðbólguspá Hagstofunnar fyrir 2019 3,8% og svigrúm til launahækkana samkvæmt formúlunni verðbólga + framleiðniaukning um 5,3% eða nálægt meðalhækkun heildarlauna (5,4%) að öðru óbreyttu.

Svigrúmið til launahækkana er þannig nýtt hlutfallslega meira í þágu lægri launa – þó allir fái sömu krónutöluhækkun.

Íslenskt atvinnulíf getur auðveldlega borið slíka meðalhækkun launa eins og kröfugerðin felur í sér.

Þeir sem hafa áhyggjur af óhóflegum og óábyrgum launahækkunum eiga að beina sjónum sínum annað en að verkalýðshreyfingunni.

„Öfgaskoðanir þær sem Hörður Ægisson aðhyllist þegar kemur að efnahagsmálum eru ekki lengur bundnar við leiðara eða skrif í Markaðinn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir. „Nú er forsíða Fréttablaðsins undirlögð af þessari yfirgengilegu vitleysu. Það er ekki annað hægt en að hrista hausinn.“

„Einhver örvænting hefur gripið um sig í hópi þeirra sem aðhyllast ofræði íslensku auðstéttarinnar. Þessi örvænting hefur drifið málflutning þeirra langt útfyrir öll siðferðismörk. Lágmarkskröfur um leiðréttingu launa eru kallaðar sturlun á meðan við eigum að trúa því að launahækkanir bankastjóra séu náttúrulögmál. Það er greinilegt að það fjarar stöðugt undan trúverðugleika þeirra, og þau finna það.“

„Þau voru búin að telja sjálfum sér trú um að verka- og láglaunafólk á Íslandi væri búið að sætta sig við hlutskipti sitt, og þau einfaldlega sturlast þegar við segjum nei. Það er náttúrulega ótrúleg kaldhæðni fólgin í því að þegar það gerist, þá saka þau okkur um sturlun.“