Ódýrara húsnæði er grundvallaratriði

Published by Efling on

Þegar samið er um kjarasamninga er mikilvægt að líta til þess hvað yfirvöld ætla að gera í húsnæðismálum. Stórátaks er þörf til að stórefla félagslegt húsnæði og lækka leigukostnað. Kröfur Eflingar hafa frá upphafi miðað að þessu kjarnamáli verkafólks.

Í gær birti átakshópur forsætisráðuneytisins í húsnæðismálum hugmyndir sem unnið hefur verið að undanfarið. Hópurinn er skipaður fulltrúum verka­lýðshreyf­ing­arinnar, rík­is­stjórn­ar, atvinnulífsins, Íbúðalána­sjóðs og Sam­taka sveit­ar­fé­laga.

„Þó tillögurnar séu jákvæðar og miði margar í rétta átt þá gildir um þær allar að þær eru enn sem komið er ófjármagnaðar og óútfærðar,“ segir Stefán Ólafsson, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu.

„Þó umbætur í húsnæðismálum, eins og hér eru fram settar, séu mjög mikilvægar og gagnlegar fyrir suma hópa launafólks þá ber að varast að líta svo á að þær komi í staðinn fyrir launahækkanir og skattalækkanir fyrir allan þorra almenns launafólks.“

Jamie McQuilkin, stjórnarmaður í Eflingu og formaður húsnæðishóps Eflingar, segir mikilvægt að líta á hve stór félagslegi húsnæðisgeirinn verður. „Samkvæmt mínum útreikningum eru aðeins um 6% íbúða á Íslandi með einhvers konar leiguþaki, og þær íbúðir eru aðeins aðgengilegar takmörkuðum hópum. Í Svíþjóð er hlutfall félagslega rekinna og verðstýrðra íbúða 60%.“ Hann segir taumhald á leigukostnaði sárvanta.

„Lykilvandinn er alger skortur á verðstjórnun í almenna húsnæðismarkaðnum.“ Kaupmáttur miðaldra- og miðstéttarfólks, aðgengi þeirra að húsnæðislánum, og lítil höft á brask með íbúðir, hafi hækkað húsnæðisverð þannig að láglaunafólk, innflytjendur og ungt fólk komist ekki inn á markaðinn. Stór hluti félagsmanna Eflingar er í þeim hópi.

„Það að vinnuaflið hafi aðgang að öruggu húsnæði á eðlilegu verði er grundvallaratriði,“ segir Sólveig Anna, formaður Eflingar.

„Ef samfélagið getur ekki séð vinnandi fólki fyrir þessu, þá er eitthvað mikið að. Þetta eru einfaldlega sjálfsögð réttindi. Aðgangur að húsnæði á eðlilegu verði kemur augljóslega ekki í staðinn fyrir launahækkanir. Það er ekki við okkur að sakast að þetta ástand hafi fengið að viðgangast. Þegar kemur loksins að því að leysa vandann kemur auðvitað ekki til greina að við gefum afslátt af eðlilegum og sjálfsögðum kröfum okkar um hærri laun. Það hljóta allir að sjá það. Við lítum svo á að vinnuaflið eigi skýlausan rétt á þessu öllu; mannsæmandi launum fyrir unna vinnu, öruggu húsnæði á eðlilegu verði og skattkerfi sem virkar sem jöfnunartæki.“