Hvenær er klósett ekki klósett? Um ákærur SA

Published by Efling on

Samtök atvinnulífsins hafa í annað sinn kært verkfallsboðanir Eflingar, nú vægar aðgerðir á hótelum og í rútufyrirtækjum. Aðgerðirnar voru þróaðar í samvinnu við starfsfólkið á þessum vinnustöðum, og eru til þess fallnar að setja þrýsting á atvinnurekendur án þess að lama vinnustaðina.

Verkfallsboðanir Eflingar eru settar fram eftir langar samningaumleitanir, þar sem kröfum um framfærslulaun var hafnað. Þess í stað hafa SA dregið viðræður á langinn með áður óþekktum tillögum um vinnutímabreytingar sem hefðu leitt til niðurbrots á yfirvinnu og eðlilegum vinnutíma.

Verkfallsboðanir Eflingar eru að hluta vinnustöðvanir, þar sem starfsfólk kemur ekki til vinnu á vissum tímabilum – frá nokkrum klukkutímum upp í nokkra daga. Slík verkföll geta valdið miklu tjóni í hótelgeiranum, og því voru aðrar tillögur einnig settar fram um að fella niður ákveðna verkþætti eins og þrif á klósettum eða þvott. Þetta skapar þrýsting á yfirmenn, sem annað hvort yrðu að sjá um verkin sjálfir eða sitja uppi með kvartanir gesta. En hótelin gætu enn starfað.

Þessi verkföll eru líka hugsuð til draga nokkrar línur í sandinn. Starfsfólki í hótelum og rútufyrirtækjum er oft gert að sinna störfum sem eru langt útfyrir þeirra starfslýsingu, eftir hentisemi yfirmanns. Þetta er stundum lýjandi, stundum hreinlega niðurlægjandi. Þess vegna ákváðu starfsmenn að hafa einfalt skilyrði í verkfallinu: Að fólk vinni aðeins samkvæmt starfslýsingu. Og að verk, einsog þrif á bílum, sem hlaðið hefur verið á strætóbílstjóra undanfarin ár, verði ekki unnin á meðan launin endurspegla ekki aukið álag.

Þernuverkfall á hótelum 8. mars, sem SA reyndi líka að fá dæmt ólöglegt, sýndi fram á þá augljósu staðreynd að hótel án starfsfólks skilar engum arði. Í stað þess að líta á boðanir verkfalla sem hvata til þess að mæta til samninga hafa Samtök atvinnulífsins nú ítrekað hlaupið með verkfallsboðanirnar til Félagsdóms, til að fá lögbann á þær. Langt er seilst, og allt reynt, til að fella aðgerðirnar á tækniatriðum og hártogunum. Í nýjustu kærunni má til dæmis sjá Samtök atvinnulífsins opinbera afstöðu sína til þrifa á klósettum:

Að mati stefnanda verða þrif á klósetti ekki aðskilin öðrum þrifum á baðherbergi.

Sömuleiðis um þvott, en SA þykir „óljóst hvað felst í því að starfsmaður sinni ekki þvotti.“ Þetta er málatilbúnaður sem hæfir táningi á mótþróastigi, ekki hagsmunasamtökum fyrirtækja á Íslandi.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að þessar verkfallsboðanir Eflingar væru „að marka skörp og illverjandi skil í þróun verkfallsréttar og beitingar hans.“ Þetta er fjarri lagi. Verkföllin eru þvert á móti ábyrg leið til að efla samningsstöðu verkafólks og virðingu, bæði í kjaraviðræðum og á vinnustaðnum, án þess að leggja ferðamannaiðnaðinn á hliðina.