Um skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Published by Efling on

Fyrir utan að boðuð skattalækkun ríkisstjórnarinnar er mjög langt undir væntingum þá vakna margar spurningar um inntak og framkvæmd þeirra breytinga sem fjármálaráðherra kynnti í gær. Glærukynningin var augljóslega hönnuð til að fegra tillögurnar og sumt virðist ekki ganga upp. Annað vekur upp mjög alvarlegar spurningar.

Sérstaka athygli vekur að sagt er að persónufrádráttur verði fastur á innleiðingartímabilinu, sem er sagt vera frá 2020 til 2022. Það gæti þá þýtt að hann verði fastur í allt að fjögur ár.

Ef rétt reynist þá væri það stórkostleg árás á kjör láglaunafólks, því það mun stórauka skattbyrði lægstu launa á ný og klípa til baka stóran hluta af þessari fyrirhuguðu skattalækkun. Nógu slæmt er að persónuafsláttur fylgi bara verðlagi en ekki launaþróun, eins og gerðist á síðasta samningstímabili, 2015 til 2018.

Ef persónuafsláttur og þar með skattleysismörk verða fryst í svo langan tíma mun það bitna mest á launalægsta fólkinu. Sambærilegar spurningar vakna um aðrar viðmiðunarfjárhæðir í tekjuskattskerfinu og bótakerfinu. Er verið að gæla við að frysta þetta allt í þrjú til fjögur ár?

Ef svo er þá eru þessar tillögur ekki einungis ófullnægjandi heldur hættulegar og ósvífnar.