Staða viðræðna við hið opinbera

Published by Efling on

Samband íslenskra sveitarfélaga

Viðræður Eflingar og Starfsgreinasambandsins við Samband íslenskra sveitarfélaga um nýjan kjarasamning hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hafa aðilar átt 5 formlega fundi. Þeim viðræðum hefur nú verið vísað til ríkissáttasemjara. Verkalýðsfélögin hafa krafist þess að Samband sveitarfélaganna efni loforð um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga innan aðildarfélaga ASÍ, sem gefin voru við undirritun síðustu kjarasamninga árið 2015. Um þessi sjálfsögðu réttindi hefur þegar verið samið við Reykjavíkurborg og ríkið. Þau greiða sérstakan lífeyrisauka sem nemur 5,91%. Þetta samsvarar tæpum 18 þúsund krónum á mánuði fyrir fólk á lægstu launum.

Það kom því mjög á óvart þegar fulltrúar sveitarfélaganna neituðu með öllu að ræða þessa eðlilegu jöfnun. Í síðustu kjarasamningum voru sérstaklega tekin frá 1,5% til að jafna lífeyrisréttindindin. Það er því ólíðandi að sveitarfélögin haldi að þau komist upp með að hafa af félagsmönnum okkar, láglaunafólki í undirstöðustörfum velferðarkerfisins, þessar lífeyrisgreiðslur.

Efling og Starfsgreinasambandið höfðu því engan annan kost en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Af hálfu Eflingar og Starfsgreinasamandsins kemur ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð.

Ríkið

Efling og Starfsgreinasambandið hafa setið átta fundi með forsvarsmönnum ríkisins, en skemmst er frá því að segja að ekkert hefur þokast í viðræðum.

Rætt hefur verið um styttingu vinnuvikunnar. Stéttarfélögin leggja mikla áherslu á að í þessum samningum náist raunstytting á vinnutíma. Tilraunaverkefni yfirvalda hafa sýnt að vellíðan, heilsa og vinnuumhverfi batni verulega við slíka styttingu. Samninganefnd Eflingar telur því augljóst að hér komi ekki til greina að slá af kröfum.

Reykjavíkurborg

Efling hefur setið nokkra fundi með Reykjavíkurborg. Enginn árangur hefur náðst sem hönd er á festandi. Samninganefnd Eflingar er ekki vongóð að sú nálgun sem ríkt hefur á fundum skili árangri.

Það hefur komið samninganefnd Eflingar verulega á óvart að sjá afstöðu borgarinnar til styttingar vinnuvikunnar. Væntingar stóðu til þess að um raunstyttingu á vinnutíma væri að ræða, enda hefur Reykjavíkurborg verið í fararbroddi tilraunaverkefnis um þannig styttingu, með mjög góðum árangri. Þessum árangri hefur Reykjavíkurborg hampað á málþingum og fundum.

Einnig má nefna að í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga töluðu allir flokkar sem nú sitja í meirihluta fyrir raunstyttingu vinnuvikunnar. Í krafti þeirra loforða til starfsmanna og íbúa borgarinnar fara þessir flokkar nú með völd í borginni.


Samningar runnu út 31. mars og Efling hefur kappkostað að ná nýjum samningum sem fyrst. Það hefur valdið okkur miklum vonbrigðum að finna hversu langt er á milli okkar og viðsemjenda okkar. Við erum farin að búa okkur undir að samningaviðræður dragist fram á haust. Við skorum á viðsemjendur okkar að mæta á komandi samningafundi með það að markmiði að mæta kröfum okkar, svo hægt verði að ganga frá raunstyttingu vinnuvikunnar og launahækkunum sem allra fyrst.