Að sekta fyrir brot eða biðja fallega

Published by Efling on

Flest erum við vön því að glæp fylgi refsing. Þegar við hnuplum úr búð er ekki nóg að skila hlutnum, heldur þarf að borga sekt líka. Þetta er gert til að óprúttið fólk láti ekki bara á það reyna dag eftir dag að taka hluti án þess að borga. Annað fyrirkomulag væri þjófaparadís.

Þess vegna er algerlega ótrúlegt að ekki sé sektað fyrir launaþjófnað, þótt hann sé miklu hættulegra fyrirbæri en hnupl úr búðum. Flest fórnarlömb launaþjófnaðar eru starfsfólk á lágum launum, oftar en ekki útlendingar með lítil og léleg sambönd í samfélagið. Fyrir þau er stóráfall ef launum er rænt af þeim, launum sem þau vinna fyrir baki brotnu.

Þegar starfsfólkinu lánast að fletta ofan af þessu og gera kröfu á fyrirtækið, þá þarf bara að endurgreiða þeim ógreiddu launin. Þjófurinn er gripinn við útganginn, en þarf bara að skila vörunni!

Í haust skrifuðu félagsmenn Eflingar kröfugerð fyrir kjaraviðræður, og sögðu þar að þetta yrði að hætta; nú yrði að sekta fyrir svona afbrot. Samtök atvinnulífsins voru krafin um að setja sektarákvæði í kjarasamninginn undir eins. Kjarasamningarnir skilgreina launin og greiðslu þeirra, það hlaut bara að hafa gleymst að setja þessi sjálfsögðu viðurlög inn — enda er slíkt ákvæði í samningi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Það hefur nú samt reynst þrautin þyngri. Mánuðirnir hafa liðið, þar sem fréttir af launaþjófnaði berast reglulega, en samt næst ekki að fá samþykki SA fyrir sektum við því.

Eftir hrollvekjandi fréttir af meðferð Menn í vinnu á starfsfólki sínu ætti að vera óverjandi að draga lappirnar lengur. En nú segja Samtökin atvinnulífsins að það sé nú þegar komin lausn við þessu! Fyrirtæki eigi að velja að skipta við vottaðar starfsmannaleigur. Engar sektir, bara frjálst val um hvort skipt sé við glæpamenn eða ekki. Frjáls markaður fyrir siðferði.

Þessi afstaða er óverjandi. Launaþjófnaður ætti ekki að vera frjálst val. Baráttan gegn honum ætti einfaldlega að miðast við að stoppa hann, frekar en að koma honum fyrir í frjálsu glæpahorni samfélagsins, þar sem hinir verstu níðast á hinum verst settu. Í dag er pláss á frjálsa markaðnum fyrir fólk sem er sama hvað öðrum finnst um að þau fremji glæpi. Lokum því.