Viðræður hafnar að nýju

Published by Efling on

Enn er ósamið við ríki, Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög en viðræður eru hafnar að nýju eftir sumarfrí. Í sumar var skrifað undir samkomulag við Reykjavíkurborg, ríki og nokkrar stofnanir um 105.000 kr. innágreiðslu til félagsmanna Eflingar sem í flestum tilfellum var greiddþann 1. ágúst sl. Í samkomulaginu kom fram að viðræður yrðu teknar upp að nýju um miðjan ágúst og fyrirhugað væri að klára kjarasamninga fyrir 15. september. Starfsmenn fengu þessa innágreiðslu vegna þeirra tafa sem urðu á samningsgerð.

Samband íslenskra sveitarfélaga neitaði hins vegar að greiða félagsmönnum Eflingar og Starfsgreinasambandsins innágreiðsluna með tilvísun í að kjaradeilunni hefði verið vísað til ríkissáttasemjara. Var deilunni vísað til ríkissáttasemjara vegna þess að SÍS neitaði að ganga til viðræðna um hvernig megi ná fram jöfnuði milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins, líkt og samið var um í kjarasamningum 2009.

Farið fram á frestun í máli Starfsgreinasambandsins gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga

SGS sem Efling er aðili að ákvað þá að höfða mál fyrir Félagsdómi þar sem látið verður reyna á túlkun samningsákvæðisins frá 2009 um skyldu sveitarfélaga til þess að ganga til kjarasamningsviðræðna um jöfnun lífeyrisréttinda.

Fyrirtaka í málinu fór fram þann 26. ágúst og fór lögfræðingur saminganefndar sveitarfélaganna fram á frestun. Frestur til að skila inn greinargerð um frávísun var til 3. september og málið flutt 4. september. Dómur hefur ekki verið kveðinn upp en verði því hafnað að vísa málinu frá er settur nýr frestur til að skila inn efnislegri greinargerð.

Umræðan um jöfnun lífeyrisréttinda er því komin í ákveðinn farveg og verða því haldnir samningafundir með SÍS þar sem önnur atriði kjarasamningsins verða rædd.

Staðan

Í stuttu máli  er staðan sú að viðræður ganga mjög hægt og alls óvíst um hvenær samningar verða undirritaðir. Ein af helstu kröfum Eflingar og SGS er stytting vinnuvikunnar sem einnig er krafa hjá öðrum félögum sem nú eiga í samningaviðræðum við hið opinbera. Því miður ber mikið á milli á hugmynda verkalýðsfélaganna og viðsemjenda um hvað sé ásættanleg niðurstaða í því mikilvæga máli. Hvað varðar fyrrnefnda innágreiðslu til félagsmanna Eflingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga bindum við enn vonir við að til hennar komi enda um einstaklega mikið réttlætismál á vinnumarkaði að ræða.

Það er með öllu ólíðandi að Samband íslenskra sveitarfélaga komi fram með þessum hætti við starfsfólk sitt, fólk sem vinnur einstaklega mikilvæg störf undir miklu álagi og fyrir lágar tekjur.