Úr nýju samningunum: Nýtt ákvæði um túlkun

Published by Efling on

Helmingur félagsmanna Eflingar eru erlendisfrá. Þau vinna oftar en ekki undir íslenskum yfirboðurum sem tala við starfsmenn á íslensku.
Undanfarna mánuði hefur vitund um þetta aukist mikið, ekki síst fyrir tilstilli þeirrar vinnu sem Efling hefur staðið fyrir.

„Við höfum orðið vitni að því að mjög mikilvægum upplýsingum sé miðlað til starfsfólks á máli sem þau einfaldlega skilja ekki,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

„Í vetur sátum við á starfsmannafundi þar sem háttsettur yfirmaður tilkynnti um hópuppsögn á íslensku, sem yfirgnæfandi meirihluti viðstaddra skildi ekki. Það þurfti að kvisast út frá þeim sem skildu nokkurn veginn hvað var að gerast. Þetta var ótrúleg uppákoma.“

Atburðir sem þessir undirstrika hversu mikilvæg fagleg túlkun á vinnustöðum er, sérstaklega þegar um mikilvægar tilkynningar er að ræða. Í nýjum kjarasamningum við SA var bætt við ákvæði sem tekur á þessu:

„Þegar miðla þarf mikilvægum upplýsingum til starfsmanna, s.s. um öryggismál, vinnutilhögun, breytingar á vinnustað eða mál er varða einstaka starfsmenn skal atvinnurekandi leitast við að hafa túlkun til staðar fyrir þá starfsmenn sem á því þurfa að halda.“

Viðbót við 7. kafla kjarasamnings SGS og SA

Þetta er mikilvægt, ekki síst til að draga úr umbunarlausu álagi og ábyrgð sem fylgir því að vera tvítyngdur starfsmaður. „Það má ekki gerast að óbreyttir starfsmenn séu gerðir ábyrgir fyrir miðlun svona upplýsinga,“ segir Viðar. „Ekki bara því það er ólaunuð aukavinna, heldur ekki síður því þeir eru þá settir í þá stöðu að vera um að kenna ef túlkunin misheppnast.“