Trúnaðarmenn úr keðjum: Úr nýju samningunum

Published by Efling on

Á Íslandi er fjöldi hótela og veitingahúsa rekin innan stórra keðja. Þessi fyrirtæki halda uppi túristahagkerfinu, en þeim sjálfum er að mestu haldið uppi af erlendu starfsfólki. Þar er líka mikil starfsmannavelta. Í þessum aðstæðum er sérlega mikilvægt að starfsfólk hafa traust trúnaðarmannakerfi með stuðningi stéttarfélags síns.

Þrátt fyrir þetta er oft einna erfiðast að fá trúnaðarmenn kjörna í stóru keðjunum í ferðamannageiranum. Sumar keðjurnar hafa álitið alla keðjuna vera einn „vinnustað“ og þar af leiðandi einungis heimilt að kjósa einn trúnaðarmann fyrir alla keðjuna frekar en að það útibú keðjunnar þar sem fólk vinnur saman að jafnaði teljist vinnustaður.

„Þetta getur þýtt að trúnaðarmaðurinn þarf að ferðast á milli vinnustaða í frítíma sínum til að geta unnið starfið almennilega,“ segir Magdalena Samsonowicz, starfsmaður á félagssviði Eflingar. „En það er samt ekki það sama og að vera í daglegum samskiptum við fólkið á vinnustaðnum.“

„Það sem þetta snýst um er að trúnaðarmaðurinn sé í reglulegum samskiptum við kollega sína,“ segir Valgerður Árnadóttir, sviðsstjóri félagssviðs. „Nýlega kusum við tvo trúnaðarmenn á hóteli þar sem annar var starfsmaður í eldhúsi og hinn var starfsmaður í herbergisþrifum. Hóparnir töluðu líka ólík tungumál. Vinnuveitandi þeirra vildi ekki samþykkja það að þörf væri fyrir tvo trúnaðarmenn þrátt fyrir að vinnustaðurinn væri fjölmennur og enginn samgangur væri milli þessara tveggja starfsstöðva.“

Í nýjum kjarasamningi við SA er ákvæði sem stuðlar að því að trúnaðarmaður fái raunverulegt færi á að sinna störfum sínum:

„Þar sem starfsstöðvar fyrirtækis eru fleiri en ein á að veita trúnaðarmanni svigrúm til að sinna trúnaðarmannastörfum sínum á öllum starfsstöðvum ellegar kjósa fleiri trúnaðarmenn til að sinna þeim störfum.“

Skýring við kafla 13.1.1 kjarasamnings SGS og SA

„Þetta gerir vinnandi fólki kleift að eiga sér alvöru málsvara á sínum vinnustað, sem veit hvað er í gangi á staðnum og fær raunverulegt svigrúm til að sinna starfi sínu,“ segir Valgerður.

Magdalena tekur undir. „Það er beint samhengi milli þess hvort trúnaðarmaður sé á vinnustað og hvort réttindabrot fái að viðgangast þar,“ segir hún. „Trúnaðarmannakerfið er hryggjarstykki stéttarfélagsins.“