Stóru hótelin eru engin paradís

Published by Efling on

Framkvæmdastjóri Hótel Sögu sagði við Fréttablaðið í morgun að það væri „sérkennilegt“ að beina verkföllum að stóru hótelunum. „Þau eru langflest að passa upp á að fara eftir öllum lögum og reglum,“ er haft eftir framkvæmdastjóranum.

Þetta er ekki í samræmi við okkar reynslu af líðan félagsmanna, hvort sem þeir vinna á stórum hótelum eða smáum.

Trúnaðarmenn okkar í stórum hótelkeðjum hafa upplýst okkur um að yfirmenn skrái nöfn þeirra sem leiti til stéttarfélagsins. „Fólki eru gefin bein og óbein skilaboð að afleiðingar fylgi því að tengjast stéttarfélaginu,“ segir Maxim Baru, yfirmaður félagssviðs Eflingar. „Fólki er bókstaflega sagt að fara ekki til stéttarfélagsins. Mannauðsdeildir margra þessara fyrirtækja hafa þá afstöðu að þau eigi starfsfólkið – og að trúnaðarmennirnir eigi að þjóna mannauðsdeildinni, frekar en að vinna með starfsfólki og stéttarfélagi.“

Fyrr í þessum mánuði var Eflingu einnig gert vart við að á einu af stóru hótelunum hangi uppi á töflu skammarlisti yfir þá starfsmenn sem eru veikir oftast.

„Þetta er alvarlegt brot gegn persónuvernd og friðhelgi einkalífs starfsfólksins,“ segir Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ. „Við þessu gætu legið sektir. Við munum tilkynna Persónuvernd um þetta mál.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að stemningin á stórum hótelum sé ekki upp á marga fiska.

„Við höfum verið að heimsækja þessi hótel í vetur. Það er komið fram af rosalegri vanvirðingu við starfsfólkið. Ég hef oft reynt að benda fólki á að stemningin á íslenskum vinnumarkaði sé algerlega fyrir neðan allar hellur, sérstaklega þegar kemur að okkar aðfluttu félögum í láglaunastörfunum.“

„Það er ekki nóg að atvinnurekendur bendi á, til að upphefja sjálfa sig, að þeir borgi eftir kjarasamningi. Í fyrsta lagi eru lágmarkslaun á Íslandi svo lág að þau duga ekki fyrir nauðsynjum hér í Reykjavík. Í öðru lagi er þetta risavandamál, þessi gegnumgangandi fyrirlitning gagnvart fólki í láglaunastörfum. Atvinnurekendur virðast því miður líta svo á að verka- og láglaunafólk, sérstaklega ef það kemur annarsstaðar frá, sé einfaldlega einnota drasl.“

Uppfært: Mannauðsstjóri Grand Hótel hefur nú stigið fram og sagt að þessi list hefði legið „inni á skrifstofu yfirmanns“ og hefði ekki hangið „neins staðar uppi“.

Þetta er ekki rétt. Myndin sem við birtum í morgun var tekin í almennu rými fyrir starfsfólk, sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Starfsfólk hefur haft samband við Eflingu til að benda á þessar rangfærslur.