Ríkið býður 6.760 krónur í skattalækkun á laun undir 900.000

Published by Efling on

Í dag kynnti ríkisstjórn tillögur um skattakerfisbreytingar, til að liðka til fyrir kjaraviðræðum. Leggja átti áherslu á lægstu laun.

„Viðræður höfðu einfaldlega siglt í strand,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Samtök atvinnulífsins voru ekki reiðubúin í alvarlegt samtal um laun sem duga fyrir framfærslu.“ Í síðustu viku voru lögð fram tilboð í samningaviðræðum frá Samtökum atvinnulífsins annars vegar og gagntilboð frá Eflingu, VR, VLFA og VLFGrv hins vegar. Langt bar á milli og voru tilboðin ekki álitinn grundvöllur fyrir kjarasamningsgerð. Mikið valt því á tillögum yfirvalda.

„Við höfðum búist við einhverju í nánd við 20 þúsund á mánuði“ segir Sólveig Anna. „Það hefði getað verið grundvöllur fyrir alvarlegu samtali.“ Hugmyndir ríkisstjórnar, sem kynntar voru í morgun, voru fjarri lagi; skattalækkun um 6.760 krónur á mánuði  fyrir mánaðarlaun upp að 900.000 krónum. Aðgerðirnar kæmu ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári.

„Ég skil ekki hvers vegna þau smyrja þessari örlitlu lækkun svona langa leið upp launastigann,“ segir Sólveig. „Hvers vegna þau eyða þessu pínulitla svigrúmi, einsog þau kalla það, á laun sem duga vel fyrir framfærslu, þannig að lækkunin sem hver fær dugar engan veginn fyrir þann stóra fjölda sem er á lægstu launum.“

Samninganefnd Eflingar fundar annað kvöld og á fimmtudaginn funda samflotsfélagin fjögur með Samtökum atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara. Þar mun koma í ljós hvort viðræðum verði slitið eða áfram haldið.