Menn í vinnu: Kröfur, sekt og stökkbreyting

Published by Efling on

Lögfræðistofan Réttur sendi bréf fyrir páska á þau fyrirtæki sem keyptu vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í vetur. Í bréfunum er bent á að samkvæmt keðjuábyrgð beri þau á endanum ábyrgð á launakjörum starfsmanna sinna, hvort sem þeir eru ráðir beint eða fengnir á leigu. Um er að ræða vangoldin laun sem hlaupa alls á milljónum króna.

„Það sem við vonumst til er að þessi fyrirtæki passi sig framvegis á að leigustarfsmenn fái rétt kjör og sæmilega meðferð,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Þeim ber lögbundin skylda til þess, og það er engum til sóma að láta málin enda svona.“

Menn í vinnu komust í fréttir í febrúar þegar starfsmenn fyrirtækisins leituðu til fjölmiðla, stéttarfélaga og lögreglu. Þeir kvörtuðu undan vangoldnum launum, hótunum og  illri meðferð. Félagsþjónustur Kópavogs og Reykjavíkur sáu fyrir þeim tímabundið og lögfræðistofan Réttur var fengin að beiðni Eflingar til að fylgja málinu eftir. Á grundvelli gagna sem Réttur hefur aflað er nú verið að athuga hvort ástæða sé til að kæra starfshætti fyrirtækisins og meðferð mannanna til lögreglu.

Facebook-skilaboð eiganda Manna í vinnu til starfsmanns. Birt með leyfi starfsmanns.

Í síðustu viku lagði Vinnumálastofnun 2,5 milljón króna stjórnvaldssekt á Menn í vinnu. Tilefnið var stórfenglegt misræmi milli skráningar starfsmanna hjá Vinnumálastofnun annars vegar og starfsmanna sem greiddu skatt hins vegar. Er þetta í fyrsta skipti sem þessu sektarákvæði er beitt.

Forsvarsmenn Manna í vinnu hafa nú stofnað nýja starfsmannaleigu, og hafa kosið að kalla hana Seiglu ehf.

„Við hvetjum öll fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Það myndi spara félaginu talsverðan lögfræðikostnað.“

Í kjölfar fréttanna í febrúar voru nokkrir starfsmanna Menn í vinnu ráðnir beint til fyrirtækjanna sem höfðu leigt þá áður. Þessi fyrirtæki hafa verið undanskilin þeim málaferlum sem nú eiga sér stað.