Ályktun gegn tillögum SA

Published by Efling on

Í yfirstandandi kjaraviðræðum hafa Samtök atvinnulífsins lagt fram tillögur um breytingar á vinnutíma og útreikningi launa. Þær tillögur ganga út á að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klukkutímum í 13, að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma og að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu. Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar – stéttarfélags telja að framkvæmd þessara tillagna yrði mikil afturför fyrir kjör almennings á íslenskum vinnumarkaði.

Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar hafna því að greitt verði minna fyrir vinnu utan núverandi marka dagvinnutíma, að sala kaffitíma verði misnotuð til að ná fram styttum vinnutíma og að atvinnurekendum verði gefið aukið vald til að ákvarða hvenær vinna er gerð upp sem yfirvinna og hvenær ekki.

Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar minna á að stytting vinnuvikunnar er krafa margra stéttarfélaga og nýtur vaxandi hljómgrunns í samfélaginu. Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar harma að Samtök atvinnulífsins standi gegn þeirri framför og leggi þess í stað til skerðingar á réttindum verkafólks varðandi vinnutímatakmarkanir.

Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar árétta kröfuna um að verkafólk geti lifað af launum sínum. Það er markmið kjarasamninga, ekki að efna til ómanneskjulegra samfélagstilrauna á forsendum atvinnurekenda og á kostnað verkafólks.

Samþykkt í stjórn Eflingar – stéttarfélags 17. janúar 2019
Samþykkt af trúnaðarráði Eflingar – stéttarfélags 17. janúar 2019
Samþykkt af samninganefnd Eflingar – stéttarfélags 17. janúar 2019